Erna Katrín hleypur 10km fyrir Sunnu Valdísi

Erna Katrín ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrsta skipti og styrkja AHC samtökin. Hin tíu ára gamla Sunna Valdís fær að velja kjólinn.

Screen Shot 2016-07-01 at 13.30.47

Ég ætla loksins að fara í kjól fyrir Sunnu,“ segir Erna Katrín Árnadóttir sem ætlar að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar AHC samtökunum. Ef hún nær að safna 200 þúsund krónum mun hún hlaupa í prinsessukjól sem hin tíu ára Sunna Valdís Sigurðardóttir velur fyrir hana. En Sunna er eini Íslendingurinn með AHC, sem er flókinn taugasjúkdómur sem veldur meðal annars sársaukafullum krampa- og lömunarköstum.

Vildi tala við stelpuna með hárið

Erna vinnur með föður Sunnu, en fallegur vinskapur myndaðist á milli þeirra tveggja fyrr á þessu ári. „Ég hitti hana fyrst fyrir þremur árum og vissi að hún talaði oft við pabba sinn í vinnunni. Um þau jól sýndi hann henni þegar við vorum að skreyta jólatréð í vinnunni og henni fannst hárið á mér svo flott. Í janúar vildi hún svo fá að hringja í stelpuna með hárið. Út frá því byrjuðum við að tala saman,“ segir Erna um það hvernig hún og Sunna kynntust.

„Við tölum saman nánast daglega í vídeósamtölum. Hún er svo mikið heima hjá sér og finnst gaman að sjá hvað aðrir eru að gera, sérstaklega konur eða stelpur. Henni finnst til dæmis alveg frábært að fylgjast með mér farða mig, enda er hún er algjör pæja. Við ræðum allt milli himins og jarðar en flest öll samtölin okkar byrja á því að hún sýnir mér í hverju hún er. Hún er alltaf í kjól og með hálsmen. En ég er aldrei í kjól og hún er yfirleitt mjög vonsvikin yfir því og segir gjarnan „díses kræst“. Svo sýndi ég henni einu sinni fataskápinn minn og henni fannst magnað að ég ætti meira af buxum en kjólum, þrátt fyrir að vera stelpa.“

EK og SV

 

Ætlar að ná takmarkinu

Ernu langar að vekja athygli á AHC samtökunum og safna eins miklum peningum og hún getur til að styrkja samtökin og rannsóknir á sjúkdómnum, en þær nýtast einnig við rannsóknir á öðrum taugasjúkdómum líkt og Parkison’s og CP. „Þar sem Sunna elskar kjóla, þá datt mér þetta í hug, að taka í fyrsta skipti þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og hlaupa í kjól. Hún er búin að sýna mér nokkra kjóla sem koma til greina og þeir eru alveg rosalegir,“ segir Erna og skellir upp úr. „Ég vona innilega að það verði gott veður svo ég taki ekki allan mótvindinn. Ég tala nú ekki um ef rignir, þá verð ég örugglega fimmtíu kílóum þyngri.“

Aðspurð segist Erna ekki vera vön að hlaupa, svo það eitt að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu er mikil áskorun fyrir hana. „Ég bý á Seltjarnarnesinu, sé fólk alltaf hlaupa og hugsa með mér hvað þetta sé mikill dugnaður. Og nú ætla ég að taka þátt og gera þetta enn erfiðara fyrir mig með því að vera í kjól. Ég veit samt ekki alveg hvernig ég á að undirbúa mig fyrir þetta. Hvort ég eigi kannski að æfa mig í snjógalla. Ég ætla allavega að ná 200 þúsund krónum því ég ætla í fara í kjól fyrir Sunnu. Hún er orðin svo spennt fyrir þessu. Við erum búnar að ræða þetta í vídeósamtölunum okkar síðustu daga,“ segir Erna sem vill að lokum hvetja alla til að horfa á heimildamyndina Human Timebombs sem fjallar um líf Sunnu og sjúkdóminn, en myndin var sýnd á RÚV síðastliðið sunnudagskvöld.

Allir sem hlaupa fyrir AHC samtökin fá Bol og buff 

ég hleyp f Sunnu buff

ég hleyp f Sunnu bolir