Hrefna Björk Pedersen varð fimmtug í gær og hljóp af því tilefni 50 km til styrktar AHC-samtökunum. 50 km hljóp hún á fjórum dögum eða 12,5 á dag. Hún stundaði íþróttir sem unglingur en síðan tók hreyfingaleysið við eða þar til hún ákvað að gera eitthvað í sínum málum í júlí 2012. Þá hafði hún verið gos-og sælgætislaus í 6 mánuði en lítið sem ekkert lést.
„Í júlí 2012 tók ég ákvörðun um að gera róttækar breytingar á lífi mínu. Þá var ég búin að vera sælgætis og goslaus í 6 mánuði en hafði ekkert lést. Ég hætti að reykja í mars 2003 og hafði á þessum tíma bætt á mig 30 kg. Ég átti orðið erfitt með að beygja mig og var mjög þung á mér og átti til dæmis erfitt með að sitja á gólfinu með barnabörnunum mínum,“ segir hún.
Á þessum tíma var hún byrjuð að reyna að hlaupa en það gekk ekkert sérlega vel því það var allt of erfitt fyrir hana. „Ég þráði breytingu, fannst ég hafa misst stjórn á eigin lífi. Í júlí 2012 byrjaði ég í 12 sporasamtökum gegn matarfíkn. Ég tók út allan sykur, glúten og sterkju. Auk þess vigta matinn minn. Ég fann fljótt að þetta hentaði mér mjög vel. Ég var í ár að koma mér niður í kjörþyngd en hef samtals lést um 42 kg,“ segir Hrefna.
Hún skráði sig í byrjendahóp í ÍR-skokki og byrjaði að skokka með þeim í júní 2012. „Ég tók þátt í mínu fyrsta en vonandi ekki því síðasta Reykjavíkur maraþoni í ágúst i fyrra og hljóp þá 10 km. Ég hafði ekki hreyft mig í fjölda ára.“
Þrátt fyrir að hafa verið orðin svona þung á sér átti Hrefna sér draum um að geta hlaupið. Hann rættist svo sannarlega eftir að hún byrjaði að hlaupa með skokkklúbbnum og síðan þá hefur hún hlaupið 3-4 sinnum í viku.
„Í dag hleyp ég um það bil 8-13 km á æfingu og fer létt með það. Þegar ég er að hlaupa líður mér eins og litlum fugli sem er að sleppa úr búrinu sínu. Þetta er svo mikið frelsi og líka forréttindi þar sem það eru alls ekki allir sem geta hlaupið. Ég fékk hugmyndina af afmælis-hlaupinu mínu á einni hlaupa-æfingunni. Mig langaði til að gera þessi tímamót mín eftirminnileg og um leið láta gott af mér leiða. Ég valdi að heita á AHC-samtökin þar sem einn af nemendum mínum er eina íslenska hetjan sem tilheyrir þessum hópi. Ég hef þekkt fjölskyldu Sunnu Valdísar í nokkur ár og því fylgst með lífi þeirra sem getur oft verið flókið. Mig langar til að leggja mitt að mörkum til að styðja við bakið á þeim og auka líkurnar á lyf finnist sem geti aukið lífsgæði þeirra,“ segir Hrefna.
Ef þú vilt leggja AHC-samtökunum lið þá er reikningsnúmerið hér fyrir neðan:
Reikningsnúmer: 0319-13-300200
kt: 5905091590